daria * blogg hégómans
|
fimmtudagur, apríl 08, 2004 Fótbolti Fyrst það er móðins að henda frá sér yfirlýsingum út og suður á bloggum gærdagsins, þykir mér tilefni til þess að tilkynna landsmönnum þær stórfréttir, að ég er hætt að halda með Manchester United. Ég er orðinn einlægur stuðningsmaður Wolverhampton Wanderers, eða einfaldlega Wolves! Mörgum hefur þótt það heldur púkalegt að halda með ManUtd., og hefur Sandra Ósk vinkona mín blótað mér fyrir vikið, enda finnst henni álíka rökrétt að halda með United eins og að exa við Déið eða halda með MR í Gettu Betur. Það er líka alveg rétt hjá henni. En United menn hafa gert vel við mína forfeður, hér áður fyrr. Afi minn í móðurætt hélt með United alla ævi, jafnvel þegar þeir voru lélegir. Eitt sumarið á 5. áratugnum var hann á Hamrafellinu, sem kom við í Liverpool. Þá tók hann sér lest til Manchester í þeim tilgangi að fá að berja goðin augum. Þegar hann kom á staðinn var allt uppselt, og engin leið fyrir fátækan háseta að fá miða í standstúku í gryfju eins og planað hafði verið. Aumingja afi, þarna stóð hann í rigningunni (það hlaut að vera rigning á svo tregablandinni stundu), og gnísti tönnum yfir óförum sínum. En þá var eins og ósýnilegt afl hefði gert öryggisvörðum Old Trafford viðvart, og þeir byrjuðu að vorkenna vesæla hásetanum sem gengið hafði yfir eld og brennistein til að fá ósk sína uppfyllta. Verðirnir töluðu við menn sem töluðu við menn, sem töluðu við afa. 10 mínútum síðar sat hann í heiðursstúkunni við hlið mikilmenna Manchesterborgar, og naut marvíslegra veitinga. Og nú finnst mér réttlætanlegt að halda með United. En ég vil ekki vera eins og allir hinir og held þ.a.l. með Wolves, þar sem föðurafi minn er dyggur stuðningsmaður þeirra. Hann gerir mikið af því að bjóða okkur krökkunum heim að horfa á „leikinn“, en „leikurinn“ er síðan ekkert annað en tölur á textavarpi. Eitthvað þykir mér þó púkó við Doritos-auglýsinguna. Þess má geta að ég veit ekki í hvaða deild þeir eru (úrvalsdeild?), heiti þjálfara eða vallar né heldur nafn á einum einasta leikmanni. |Dagga| 02:18 mánudagur, apríl 05, 2004 Lög um siðferði Mér finnst að það ætti að banna Margaret Thatcher-bolinn, rétt eins og það þykir óæskilegt að klæðast einkennisbúningi SS-liða. Báðar flíkur eru nefnilega svo ljótar, að mig hryllir við ásjónu þeirra, nema e.t.v. herbúningurinn. Hann hefur sjarma. En ekki Járnfrúin. |Dagga| 15:26 |