daria * blogg hégómans
|
sunnudagur, september 07, 2003 Áfram haltu, aungu skaltu þyrma Ég var að koma af bókmenntaupplestri í Iðnó. Kynnir kvöldsins var Halldór Guðmundsson. Kynnir annað kvöld verður Hannes Hólmsteinn. Haha voða sniðugt. Annars hitti ég Marvin þar, sem hafði verið í Norræna húsinu við setningu hátíðarinnar. Tomma Olræt ku þar hafa orðið tíðrætt um Halldór Laxness. Stundum skil ég fólk sem talar um ofdýrkun á Laxness. En bara stundum. Ætli Björk sé Smekkleysu jafnmikilvæg og Harry Potter er bókmenntamafíunni? Líklega. Nokkrar spurningar sem vakna um tengla: 1. Af hverju kallar þessi gaur döggu rýting? 2. Af hverju er þessi gaur kallaður Atli Bolla? Já ókei fatta það núna. 3. Af hverju fær þessi gaur að vera kallaður snillingur? Og hvar er síðan hans? 4. Hvar lærði þessi gaur að hanna heimasíður? 5. Af hverju fær þessi gaur engan tengil? 6. Af hverju er Vala hætt að blogga? 7. Skyldu kínverska mafían og bókmenntamafían deila yfirráðasvæðum? 8. Af hverju beikon? 9. Hvaða kjáni er nú þetta? 10. Keypti einhver DVD-ið hans Erlings? Góðar stundir. Nú ætla ég að láta regndropana svæfa mig. |Dagga| 23:32 laugardagur, september 06, 2003 Hvenær kemurðu aftur, rauðhærða kórstelpa? Nú rétt í þessu er einhver að skjóta upp flugeldum í götunni minni. Ætli það hafi ekki verið hann Atli Eðvalds, nágranni minn? Hann ku vera haldinn þessari óskiljanlegu flugeldadellu sem hrjáir allmarga íslenska karlmenn úr efri miðstétt. Kannski hann sé að fagna úrslitunum í leiknum. Pælið í að kaupa sig inn á landsleik sem fer núllnúll. Er það ekki einsog fara til læknis sem finnur enga lækningu? Eða fara á barinn og drekka pilsner? Eða fara til spákonu sem hefur ekkert að segja? Eða fara til gleðikonu og fá ekki fullnægingu? Í dag fór ég í Perluna að kaupa geisladiska. Keypti einn með Bubba, einn með Jimmy Smith og einn með MJQ. Var Perlan virkilega byggð fyrir 1.000.000.000 kall árið 1991 til að enda sem einhver geisladiskasjoppa? DVD-tónlistarmyndaúrvalið var allténd nokkuð gott. Hey, og svo er auðvitað vaxmyndasafnið sem ég hef aldrei skoðað. Það langar mig til að gera. Nennir einhver að koma með mér þangað? Maður gærdagsins var konan sem kom á Bókasafn Hafnarfjarðar, tók spólu sem kostaði fimmtíukall og borgaði hana með krónum. Findið. Næntísböll eru undarlegt fyrirbæri. Af hverju er fólk að fá nostalgíu fyrir einhverju sem var bara að gerast í gær? Meira að segja eitísböll eru hjákátleg. Af hverju ekki að fá einhverja almennilega nostalgíu, t.d. nítjándualdarnostalgíu, fyrst maður er að þessu? Gera þetta almennilega. Muniði þegar ég var að tala um nostalgíurnar? Það voru sko góðir tímar. |Dagga| 21:46 föstudagur, september 05, 2003 Af kennurum og stórstjörnum Í morgun mætti Hjalti Sn. Ægisson, barnaskólakennari, til vinnu sinnar á nýjaleik. Eins og geta má nærri er starf hins íslenska forfallakennara tilviljunum háð og getur vinnudagurinn verið allt frá því að vera ein kennslustund upp í að vera 6-7 klst törn, þegar einhverja vinnu er að fá á annað borð. Á stórum vinnustöðum er þó mikið um forföll og er Setbergsskóli í hópi stærstu skóla landsins. Dagurinn í dag var að vísu ekki nema ein kennslustund sem fór í að hjálpa 10 ára krökkum að skrifa Buxur, vesti, brók og skó í skriftarbókina sína. Af döggu er það að frétta að hún er búin að gefa a.m.k. 50 eiginhandaráritanir og mæta í tvo viðtalsþætti á kapalsjónvarpsstöðvum. Snótin er s.s. að gera stormandi lukku á eyjum Filippusar, eins og búast mátti við. Í dag fór hún í skoðunarferð um Manila með innfæddum kórdrengjum (og aðdáendum) sem vildu ólmir sýna henni borgina. Óskandi að hún hafi ekki gengið í neinar gildrur, eins og títt er um Íslendinga í útlöndum (þeir sem hafa heyrt af interrailferðinni minni mega hlæja núna). |Dagga| 22:45 fimmtudagur, september 04, 2003 Ping? Pong! Ég þurfti að stoppa á Hlemmi í dag. Rónarnir þar eru orðnir svo vel skilyrtir að þeir snáfa í skömm sinni út undir húsvegg í skítaveðri til að fá sér smók. Til hamingju Þorgrímur, var það ekki þetta sem þú vildir? Kaffistofan í Árnagarði er horfin og það er búið að setja nýja kaffistofu þar sem sú gamla var. Gömlu, góðu, himinháu verðin eru hins vegar enn á sínum stað. Ég borgaði t.d. sjötíukall fyrir einn lítinn og ljótan banana. Kræsturinn. Ég held að hljóðið sem kemur þegar maður setur stefnuljósið á blikki hraðar en sjálft ljósið. Samt hef ég aldrei hlaupið út og sannreynt það. Á morgun er fyrsti dagurinn í nýju (gömlu) vinnunni minni. Nánari fréttir berast annað kvöld...fylgist með frá byrjun! |Dagga| 18:38 miðvikudagur, september 03, 2003 Tilviljun? Hjalti Rögnvaldsson leikari settist við hliðina á mér í strætó í dag þar sem ég sat og las Heart of Darkness. Eins og glöggir lesendur hafa líklega áttað sig á, þá var Hjalti Rögnvaldsson að leika pabba í Skýjahöllinni, rétt eins og Ingvar E. Sigurðsson, sem lék á móti Harrison Ford í K-19, sem lék áður í Apocalypse Now, sem er einmitt inspíreruð af Heart of Darkness. Talandi um samhengi hlutanna. |Dagga| 20:16 þriðjudagur, september 02, 2003 Annar í september Á morgun verður dagga að syngja á stað sem kallaður er CCP (Cultural Center of the Philippines). Minnir óneitanlega á CCCP, sem var skammstöfun Sovétríkjanna með kýrillísku letri. Reyndar vill svo ótrúlega til að til er félagsskapur manna í Englandi sem notar þessa sömu skammstöfun. Absúrd, ekki satt? Og þó - kannski ekki meira absúrd en að láta sláturfélag heita SS. Þriðjudagar og fimmtudagar verða greinilega stífustu dagarnir hjá mér í vetur: Kennslustundir frá tíu til fimm. Byrjaði í þremur nýjum kúrsum í dag, en þess má geta að ég hef haft alla kennarana áður. Flestir höfðu búist við því að slavnesku bókmenntirnar hans Árna Bergmann yrðu mál málanna, en svo voru „ekki nema“ 30-40 manns mættir hjá honum. Sigurvegari dagsins er að sjálfsögðu Rúnar Helgi Vignisson með jaðarbókmenntirnar, en hjá honum voru 75 nemendur skráðir. Stofan var enda full út úr dyrum og súrefnisskortur almennur. Margar skemmtilegar bækur verða lesnar, m.a. nokkrar sem RHV þýddi sjálfur og bókmenntamafían gaf út. Ég tók eina óperu og eina sinfóníu eftir Tsjækovskíj til að hlusta á þegar ég les Lermontov (er að þjálfa mig upp í að gera þetta tvennt í einu). Hver veit nema ég kaupi mér slopp og flókainniskó og byrji að reykja pípu til að geta verið enn merkilegri? Orð dagsins er orðið ógó, stytting á hinu ofnotaða orði ógeðslega (frb. óxla). Fjárkúgun dagsins er hins vegar að finna hér. Þvílíkt hugmyndaflug! |Dagga| 19:59 mánudagur, september 01, 2003 Ain't No Sunshine When She's Gone, eða: Úrkoma í grennd Hvern langar til að kaupa Cheerios þegar hann sér myndir af einhverju slefandi fólki? Ekki mig. Fyrsti skóladagurinn minn var í dag, en fyrir þá sem ekki vita er ég í bókmenntafræði í HÍ. Ég hitti margt skemmtilegt fólk sem verður með mér í stefnunum, t.d. Stellu, Kára, Betu, Gunna, Guju, Báru o.fl. (vá hvað þessir hyperlinkar eru skemmtilegir). Ástráður og Sveinn Yngvi skiptast á að kenna. Með öðrum orðum: Magnaður kúrs framundan. Ég heimsótti jafnframt Þjóðarbókhlöðuna í fyrsta sinn í margar vikur. Sú heimsókn kostaði mig tvo árekstra: 1) Á hurðina þegar ég gekk inn. 2) Á hurðina þegar ég gekk út. Kröfuganga fyrir nýrri, hraðvirkri hurð á Þjóðarbókhlöðuna verður farin frá Austurvelli á morgun kl. 10. Síðasta klukkutímann hef ég fengið tvö símtöl: Eitt frá Jóa vini mínum í Kaupmannahöfn og eitt frá endurskoðandanum mínum, sem sagði að ég gæti nú krafið blóðsugurnar um væna endurgreiðslu. Ástæðan er þó einföld, nefnilega vankunnátta mín við að fylla út skattframtöl. Þessum tveimur símtölum verður fagnað með því að hlusta á Beethoven, borða súkkulaði og lesa Söguna af Pí. Stórskemmtileg bók. |Dagga| 19:14 Minni nýja lesendur á bloggið síðan á föstudaginn Ég fékk stórsnjalla hugmynd að sjónvarpsþætti fyrir Skjáeinn í gær. Þáttur þar sem farið er með landsþekktu fólki í hverfisverslunina þeirra og spjallað við það á meðan það kaupir í matinn. Er það ekki góð leið til að kynnast fólki - að sjá hvað það setur í innkaupakörfuna sína? Besta hugmynd sem ég hef fengið síðan mér datt í hug að snyrta á mér neglurnar með naglaskærum um daginn. Ég þoli ekki þegar maður er að fá sér mjólk og sér að fernan sem er opin dugir líklega ekki í heilt glas. Maður opnar því nýja fernu og hefur hana „standing by“ en svo kemur á daginn að það var alveg nóg í hinni fernunni. Annars finnst mér mjólk alltaf bragðast öðruvísi þegar maður drekkur hana eintóma. Drekk hana aldrei án einhvers sem inniheldur súkkulaði. Er hægt að vakna en vera samt áfram með lokuð augu? |Dagga| 01:14 |