daria * blogg hégómans
|
miðvikudagur, febrúar 25, 2004 Scanið halo er bilað. Oj því kommentabatteríi. Hinsvegar horfði ég á hasarmyndina True Lies í gærkveldi við mikinn fögnuð móður minnar í næsta herbergi. Sú mynd er orðin 10 ára gömul og það sést nú bara á varalitnum hennar Jamie Lee. En eitt sló mig mjög og það voru Jíhad-Arabarnir sem áttu að vera vondu kallarnir. Svei mér þá ef ég hélt ekki bara með þeim allan tímann og fannst þeirra hlutskipti mjög tríst. Heimsmyndin hefur sannarlega breyst á þessum 10 árum. Hvað verður tabú eftir 10 ár? Feitukonubrandarar? Á þessari stundu sit ég í makindum mínum í afgreiðslu Bókasafns MH og hlusta á háværa tóna Dr.Gunna sem spilar á Lagnókaffihúsinu niðrá Matgarði. Hér er ekki nokkur hræða vegna Lagningadaganna, þó kínversku IB-krökkunum sé ekki skemmt í lessalnum. Doktorinn er greinilega ekki þeirra tebolli. Jæja, allir að hlusta á Rás 2 kl. 8 í kvöld. Litlir grunnskólakrakkar etja kappi í spurningakeppni undir stjórn Hjaltans, auk hinna MR-spurningasnáðanna. Það verður svei mér skemmtilegt. |Dagga| 12:15 mánudagur, febrúar 23, 2004 Svefndrukkin og skelþunn... (varúð - skýrslublogg!) Nei ég er ekkert svo skelþunn. Bara skel. En helgin var svei mér endurnærandi. Föstudagurinn hófst í stressi og ég hamaðist í heilan dag við að klára félagsfræðiskýrsluna mína. Skemmst er að segja frá því að ég glataði eiginlega öllum gögnum á disklingnum og þ.a.l. þorranum af ritgerðinni. Björn Bergsson var mjög glaður. Síðan byrjaði söngkeppnin og performansið heppnaðist þrusuvel. Ég þurfti hinsvegar að opna helvítis sjóvið (þ.e.a.s. var fyrst á svið) og því held ég að dómendur hafi gleymt snilldarlegri frammistöðu minni þegar á hólminn var komið. En, ég var ánægð með kvöldið. Eiga einhverjir myndir frá keppninni? Mér vilja sjá. Hvað um það, klukkan tæplega sjö á laugardagsmorgni var ég rifin upp af árrisulum ástmanni mínum og við drifum okkur af stað í sumarbústað. Stoppuðum á bensínstöð í Firðinum og sáum bara þreytta unglingspilta sötrandi píkubjóra á leið heim af öldurhúsum bæjarins. Mikið leið mér vel fyrir mína hönd. Allavega, hlustandi á Kraftwerk og Hauk Morthens brunuðum við í Borgarfjörðinn og við tók heljarinnar lestrartörn. Ekki skemmdi fyrir að matarkostur ferðarinnar var ekki af verri endanum. Kex og ostar, rauðvín og túborg, kók og kristall, pasta og böggles að ógleymdum HEILUM KASSA AF ELITESSE. Við rétt náðum að helminga hann, og nú er þetta mitt eftirlætissúkkulaði. Síðan var lært og lesið í þögninni, því ekkert var rafmagnið né símasambandið. Aðeins kyrrð og ró í návist fjallanna og næðingsins. Þangað vil ég aftur fara.. svei mér þá ef þetta verður ekki besta afslöppunarhelgi febrúarmánaðar. E.S. - Varast skaltu át fornra ólívualdina í lauslega opinni krukku í sumarbústaðaskáp. Góðar líkur eru á því að aldinið sé úldið þó síðasti söludagur krukku sé í júlí 2006. |Dagga| 11:52 |