daria * blogg hégómans
|
föstudagur, júní 25, 2004 Litir Eins og ég hef áður sagt er ég mikil áhugamanneskja um liti. Hinsvegar er ég þessa dagana vonsvikin yfir því að geta ekki fundið veglegar útgáfur af Crayola vaxlitakössum. Hvílík afþreying, að sitja með 80 vaxliti og Beauty and the Beast-litabók... ah. Nú eru pakkar með fleiri litum en 24 ekki sjáanlegir í búðum borgarinnar. Stundum vildi ég óska þess að árið 1992 væri aftur gengið í garð. |Dagga| 23:41 miðvikudagur, júní 23, 2004 Tímataka Ég var að keyra um á blómabílnum hans Baldvins og kom auga á skringilegan strætisvagn á Hringbrautinni. Í stað þess að það stæði LÆKJARGATA eða 112 framan á vagninum stóð TÍMATAKA. Þótti mér það allmerkilegt í ljósi nýja leiðakerfisins. Ég er vægast sagt spennt en ég veit að þetta verður eitthvað helvítis fíaskó. Annars á ég grein í dag. |Dagga| 14:43 þriðjudagur, júní 22, 2004 Skæl og væl Ég er í fýlu í dag. Það fer ansi margt í taugarnar á mér þessa stundina og ekkert virðist geta breytt því. Ástæður fyrir skapstirðleika má rekja til svefnleysis, en ég veit hinsvegar að svona fýlufærslur eru afskaplega óskemmtilegar aflestrar. Að mínu mati er alveg feikinóg af slíkum ruslskrifum í bloggheimum, og margir helstu bloggnöldrar prýða minn eigin tenglalista. Það stendur til bóta og bráðum verða þeir fjarlægðir burt af síðunni svo þeir hverfi úr lífi mínu. Margir þessara bloggara halda að skrif þeirra séu fyndari og fróðlegri en gengur og gerist. Einn ónefndur bloggari fer alveg afspyrnu mikið í taugarnar á mér þessa dagana fyrir þær sakir að hún er svo útbrunnin að hún hlýtur skammir fyrir. Ég ætla ekki að segja hver það er. Og mamma og pabbi, þið eruð alveg frábær; þetta var bara léttur brandari.... Djöfull er ég leiðinleg í dag. Talandi um að vera útbrunnin... |Dagga| 15:15 mánudagur, júní 21, 2004 Höjskúlen Ég var að skila inn stúdentsprófi í aðalbyggingu HÍ, og nú virðist allt vera klappað og klárt. Bíð róleg eftir gíróseðli upp á 32.500 kr.- Hinsvegar reyndi óvinastofnun Listabrautar hin síðari að lokka mig til sín. Greinilega vantar tölvunarfræðinema sem eru nógu efnaðir til að borga milljón fyrir B.S. próf, því ég fékk póstkort frá tölvunarfræðideild HR. Vegna fækkunar tölvunarfræðinema á Íslandi undanfarin 2-3 ár er afar líklegt að verulegur skortur verði á fólki með tölvunarfræðimenntun á árunum 2006-2007. Vilt þú verða meðal þeirra sem fyrirtækin keppast um? HA? Hvað gerist síðan 2008? Eitt er á hreinu að það mun ekki verða átakanlegur skortur á lögfræðingum þar sem þorri stúdenta hafa hermt eftir uppátektarsemi minni og skráð sig í lagadeildina til að fylgja einhverri tískubólu. En ég er að sjálfsögðu að fylgja göfugri hugsjón. Annars fór ég í ógeðslega skemmtilega útilegu um helgina og fékk fullt af freknum. |Dagga| 13:48 |